144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:35]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nú verð ég að viðurkenna að ég er hvorki nógu sérfróður um lög um náttúruminjar né um lög um menningarminjar, sem þingmaðurinn vitnar til, þannig að ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til heimildar ráðherra í þeim lögum. En séu þau með svipuðum hætti og hér er gert ráð fyrir, þ.e. að ráðherra geti falið stofnun að útbúa tillögu að mati ráðherra án þess að það sé tillaga, ráðlegging eða skilgreint samráð við fagaðila eða aðra þá þykir mér það hreinlega ekki til fyrirmyndar og ég geri stórkostlega athugasemd við það í þessu frumvarpi.

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og líka sem áhugamaður um minjavernd og um þessi mál almennt, að ég hef fulla trú á því að hægt sé að gera betur í þessum málum. Þó svo að ég hafi í ræðu minni vitnað sérstaklega í skipulagslög og það vinnulag sem þar er fyrir hendi er ekki þar með sagt að það sé endanlegt, fullkomið og megi ekki bæta.

En ég hef áhyggjur af því, þó að ég trúi því að góður ásetningur sé á bak við samningu þessa frumvarps, að hér séu bara svo veigamiklir gallar á sem ég hef áhyggjur af.