144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé svarið. Ég verð að segja það sama og hann að ég er ekki sérfræðingur í þessum lögum en ég sé ekki betur en að í lögum um menningarminjar geti ráðherra með svipuðum hætti falið sömu stofnun, Minjavernd, að útbúa tillögur.

Ég vænti þess að fá áhugaverðar umsagnir frá sveitarfélögum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sé ekki betur en samráðið, sem gert er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu, hafi leitt til þess að komið hafi verið á samspili milli yfirferðar á skipulagsáætlunum og áætlunum um verndarsvæði í byggð sem eigi að tryggja að ekki sé hægt að fara í vinnu á verndarsvæðunum eða skipulagsáætlunum án þess að það spili saman. Ég hef trú á því að sveitarfélögin fylgi því eftir að það vinnulag verði skýrt og markvisst.

En mig langar að koma aðeins inn á það sem hefur verið rætt hér fyrr í dag, þ.e. með hvaða hætti almenningur gæti haft frumkvæði og komið að ákvörðunum í gegnum ferlið við mótun verndarsvæða í byggð, hvort hv. þingmaður hefur hugmyndir um það, ferlið fyrir afkomu almennings.