144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[18:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Ég hef ekki áhyggjur af þessu þar sem að mínu viti er algjörlega ljóst að ef ráðist yrði á Ísland þá hefur okkar góða og vinsæla lögregla lítið í það að gera. Ég get ekki ímyndað mér að lögreglan sé skilgreind af þeim sem mundu hugsanlega vilja ráðast á Ísland sem einhvers konar ógn. Við búum nú ekki við það sterkt lögreglulið, því miður, ætla ég að leyfa mér að segja. Lögreglan og Landhelgisgæslan eru náttúrlega fyrst og fremst borgaralegar stofnanir. En þetta eru okkar verkfæri og þessir aðilar eiga í samskiptum við samherja okkar erlendis, lögreglan á t.d. upplýsingaskipti út af Schengen og öðru slíku, Landhelgisgæslan ver landhelgi okkar og á samstarf við t.d. norska herinn eða norsku strandgæsluna og bandarísku strandgæsluna sem eru jafnvel hluti af þeirra herjum. Í stöðu Íslands sem hefur engan her hafa þessar borgaralegu stofnanir tekið yfir ákveðin verkefni sem lúta að vörnum landsins að einhverju leyti, eins og t.d. rekstri kerfisins í Keflavík. Aðrar skyldur sem hvíla á eins og lögreglunni tengjast t.d. landamæravörslu og slíku við Ísland. Allt skiptir þetta máli.

Ég lít ekki svo á að verið sé að skapa einhvers konar ógn fyrir þessa aðila, alls ekki. Við verðum hins vegar að hafa í okkar kerfi einhverja sem eru í samskiptum við þær stofnanir sem við erum aðilar að og þessir aðilar gera það. Við undirrituðum þessa samninga til að hafa alveg hreint og klárt hvert hlutverk þeirra væri og þar af leiðandi er skýr verkaskipting milli utanríkisráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins til þess að við séum ekki blanda saman ólíkum hlutum. Ég er þá sammála hv. þingmanni að ef það væri einhver misskilningur eða hætta á einhverju rugli þarna á milli þá væri það ekki gott. En það er ekki þannig í dag. Við erum búin að skýra þessa verkaskiptingu, (Forseti hringir.) það er búið að skýra hlutverk hvers og eins.