144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[19:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál sé hér fram komið. Mig langaði að setja sérstaka áherslu á netöryggi og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum en jafnframt vekja athygli á því að ég set svolítinn fyrirvara við að setja inn í þetta plagg það sem skilgreint er sem hryðjuverkaógn.

Mig langar í ljósi orðalags um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum að beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra af því að ég hef verið mjög ánægð með það sem er í 9. lið: „Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, …“ þá langar mig að spyrja hvað það þýðir nákvæmlega, hvort hæstv. utanríkisráðherra geti útskýrt það fyrir okkur. Mér finnst þetta vera töluverð veiking á þessari stefnu. Síðan á eftir þessu stendur: „í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

Síðan er farið aðeins nánar út í þetta í skjalinu þar sem stendur:

„Það hefur löngum verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að á Íslandi skuli ekki vera kjarnavopn. Þingsályktun þessu til áréttingar var samþykkt á Alþingi árið 1985. Til frekari áréttingar á þeirri stefnu er í þessari tillögu lagt til að Alþingi álykti að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Friðlýsingin nái til íslensks lands og landhelgi að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, líkt og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, og skuldbindinga innan stofnana og samninga sem Ísland á aðild að.“

Mér finnst mjög mikilvægt að fá það skýrt nánar hvað þetta felur í sér. Við ræddum þetta töluvert mikið í nefndinni, ég átti sæti í nefndinni fyrir hönd Hreyfingarinnar á síðasta kjörtímabili, en mér finnst þessi lending ekki nægilega skýr. Ég fagna því að hér standi: „Íslensk stjórnvöld munu tala fyrir þessu sjónarmiði á alþjóðavettvangi og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Stjórnvöld munu beita sér enn fremur fyrir vitundarvakningu og opinni umræðu um kjarnorkumál og stuðla þannig að afvopnun og friði.“

Það sem ég mundi vilja sjá og fá kannski ítarlegri upplýsingar um, og það kemur vonandi fram í störfum utanríkismálanefndar, er nánari útfærsla á hvernig við ætlum að stuðla að öllum þessum góðu markmiðum sem hér eru rakin í þessari stefnu.

Í 5. lið stendur:

„Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“

Þetta eru stór og göfug markmið sem ég sakna svolítið að sjá í þessari stefnu betri útlistun á hvernig við ætlum að gera þetta.

Eins og fram kom í upphafi máls míns er ég sérstakur áhugamaður um netöryggi Íslands. Við fengum stofnun, Alþjóðastofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, til að taka saman stöðu mála um netöryggi Íslands. Þetta var í raun og veru hraðyfirferð yfir ástand mála og tillögur til þjóðaröryggisnefndar. Hægt er að ná sér í skýrsluna á vef stofnunarinnar immi.is en skýrsluna gerðu Smári McCarthy og Herbert Snorrason.

Í skýrslunni er komið með nokkrar tillögur að aðgerðum og rétt viðbrögð stjórnvalda. Farið er mjög ítarlega yfir ástand mála hérlendis, til dæmis öryggi sérkerfa stofnana, eftirlit og hlerun á fjarskiptum, almennt eftirlit með fjarskiptum, hervæðing internetsins, hvað er þjónustuneitun og fleiri atriði. Þetta er mjög ítarleg og góð samantekt þó að hún sé gerð með hraði. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Rétt viðbrögð stjórnvalda væru að taka til greina öryggi alls þess hluta netsins sem eru innan sinna landamæra (óháð tilgangi eða stjórnun þeirra nethluta), og að auki alla þá hluta netsins sem eru í samskiptum við þau tæki. Þetta leiðir af sér að varnarsvæði Íslands í net- og upplýsingaöryggismálum er internetið í heild sinni, en að sama gildi um aðrar þjóðir.

Til að nálgast lausn á þessu væri eðlilegt að fjármagna ýmis verkefni til að auka heildaröryggi kerfisins. Benda má á t.d.:

Endurskoðun á frjálsum hugbúnaði. Það væri ekki viðeigandi fyrir ríkisstjórnir að fjármagna endurskoðun á séreignarhugbúnaði, sem ætti að falla undir skuldbindingar hugbúnaðarframleiðandans.“

Þetta er mjög mikilvægt og hefur komið í ljós eftir að þetta var tekið saman, þessi skýrsla, að mörg fyrirtæki frá t.d. Bandaríkjunum hafa heimilað svokallaðar bakdyr inn í sína grunna fyrir bandarísk yfirvöld. Því er mjög mikilvægt að það verði, og ég vona það, ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur lesið skýrsluna og þær ábendingar sem í henni eru, en þetta er skýrsla um netöryggi Íslands. Ég legg til að í útfærslu á þessari þjóðaröryggisstefnu verði í smáatriðum farið yfir og þær upplýsingar nýttar sem hafa legið fyrir í kjölfar þeirra uppljóstrana sem Snowden hefur borið á borð og að einhverju leyti eru tillögurnar í þessari skýrslu IMMI forveri þess, því að það var í raun og veru kannski ekki fyrr en Snowden kom með upplýsingar sínar að það sem við lögðum til — ja, ég sletti, forseti, — meikar einhvern sens. En mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra — það er svo stuttur tími sem maður hefur til að fjalla um þetta, þetta er svo rosalega viðamikið mál — ég legg til að ráðherra kíki á skýrsluna. Hann má fá eintakið mitt þegar ég er búin með ræðuna mína.

Mig langar fyrst tíminn er strax farinn að lesa bókun mína sem snertir svolítið á þessum öryggismálum og þeim heimi sem við búum í í dag, en bókun mín hljóðar svona:

„Einn af hornsteinum lýðræðis grundvallast af getu ríkja til að vernda friðhelgi ríkisstjórna og stjórnsýslu sem og friðhelgi einkalífs borgara ríkisins. Nútímatækni hefur gert yfirvöldum annarra landa það kleift að safna stafrænum gögnum allra Íslendinga í trássi við stjórnarskrá lýðveldisins. Því er ljóst að nauðsynlegt er að íslenska ríkisstjórnin þarf að móta stefnu í samstarfi við alþjóðastofnanir og samtök er sérhæfa sig í að tryggja stafræna friðhelgi þvert á landamæri til að tryggja þjóðaröryggi Íslands.“

Það vill svo skemmtilega til að ég er að móta ályktun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið sem mun koma til afgreiðslu á haustþingi Alþjóðaþingmannasambandsins, og þessi tillaga byggir nákvæmlega á því sem ég nefndi í bókun minni og í henni verða tillögur að bæði aðgerðum sem ríkisstjórnir geta gert til að tryggja þetta öryggi borgara sinna og ríkisstjórna sem og í alþjóðasamhengi. Ég vonast til þess að við munum temja okkur það í okkar alþjóðastarfi þar sem ályktað er um — ja, þar sem samþykktar eru þingsályktanir að búinn verði til vettvangur fyrir slíkt hér á þinginu, sem er ekki til staðar núna. Við erum viðstöðulaust að álykta með öðrum þjóðum í ýmsu alþjóðastarfi og allt of lítið af því skilar sér inn í stefnu hérlendis, en það er eitthvað sem ég held að við þurfum að taka á.

Það er mjög margt gott í þessari stefnu og athyglisvert var að fara svolítið djúpt í þessi mál á sínum tíma þegar við vorum að fara yfir það undir styrkri stjórn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem gæti verið möguleg ógn. En ég hefði viljað sjá í 5. lið í tillögunni að þar væri netöryggið líka tekið fyrir af því að það er svið sem við höfum nú þegar litið á okkur sem sérfræðinga í og um að gera að nýta sér þá sérstöðu sem við nú þegar höfum á því sviði.