144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[19:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla reyndar að vera lítið í andsvörum í kvöld en þeim mun meira er ég tilbúinn fyrir hönd ráðuneytisins að koma á fund í utanríkismálanefnd og fara yfir málið þar.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að setja fókusinn á þessar nýju ógnir eins og netöryggi og annað, og ég viðurkenni fúslega að ég hef miklu minna vit á því en hv. þingmaður og hennar félagar, en þetta er klárlega ógnin sem við þurfum að horfast í augu við.

Varðandi 5. liðinn þá er það rétt, hann er mjög víðtækur og er í sjálfu sér stefnumörkun eins og allt þetta er. Við erum í raun ekki að benda á einstakar leiðir eða lausnir eða slíkt í þessu. Við vitum að ef sú góða stefna, sem við leggjum hér fram, yrði verðlögð mundi það kosta býsna marga milljarða ef vaðið yrði í að hrinda öllu þessu í framkvæmd, við þurfum væntanlega að forgangsraða. En við erum að vinna mikið að þessum hlutum í dag, t.d. í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, í gegnum þróunarsamvinnu o.fl., því sem kemur fram í 5. liðnum af því að hv. þingmaður nefndi það.

Þar sem við tölum um kjarnorku þá er það alveg skýrt — ég held að við séum öll sammála um það — að við viljum ekki að á Íslandi séu geymd kjarnorkuvopn, að þau verði staðsett hér, og þá á ég vitanlega líka við hafið í kringum landið. Við getum hins vegar ekki bannað herskipum, svo að dæmi sé tekið, að sigla um íslenska landhelgi ef þau eru í friðsamlegum tilgangi, ef þau eru að sigla á milli staða, þó að um borð séu kjarnorkuvopn. Það er til dæmis vegna hafréttarsáttmálans.

Sú yfirlýsing, ég geri ekki lítið úr því, sem við gefum með því að segja að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn, að við séum andvíg því, og þingsályktun frá árinu 1985 eru gríðarlega mikilvægar pólitískt, mikilvæg skilaboð Íslands inn í þessa umræðu.