144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 16 í þessari tillögu er farið yfir þær hugmyndir sem liggja að baki þjóðaröryggisráði. Ég ætla að leyfa mér að segja að þó að áherslurnar í þessum tíu punktum lúti töluvert mikið að því sem hv. þingmaður kallar hér varnir út á við, hernaðarvarnir eða slíkt, þá er það að mínu viti ekkert óeðlilegt. Það er vitanlega stór hluti í okkar þjóðaröryggi og vörnum að vera með slíkt í lagi.

Við gleymum því heldur ekki að við erum með almannavarnaöryggið og það á öðrum stað, það tvinnast svo saman við þessa áætlun eða þessa stefnu sem við erum með hér, eins og kemur fram í textanum. Þjóðaröryggisráð yrði þá einhvers konar ráð sem mundi samræma og samhæfa innra öryggið, ytra öryggið o.s.frv. Auðvitað eigum við eftir að taka umræðu um það hvernig þetta ráð verði skipað en hér er gengið út frá því að það verði undir forustu forsætisráðherra á hverjum tíma sem gegnir vitanlega lykilhlutverki þegar kemur að stjórn landsins og öllu slíku. Hverjir sitja þar, hvað verður það mannmargt o.s.frv. er bara umræða sem við þurfum að fara í gegnum.

Einhvers staðar í ferlinu, einhvers staðar á bak við, eða hvernig sem menn sjá þetta fyrir sér, verða þessir sérfræðingar sem hv. þingmaður er að tala um. Og það verða ekki bara sérfræðingar sem hafa áhuga á hernaði eða einhverju slíku, alls ekki. Það er einmitt mikilvægt að við veljum til þess sérfræðinga sem hafa vit á náttúruógn, sem hafa vit á netöryggi og öllu slíku. Það má alls ekki skilja þetta á þann veg að þjóðaröryggisráð eigi eingöngu að fjalla um hernaðarógn eða eitthvað slíkt. Það samtvinnast við hitt starfið sem við innum af hendi hérna inni, almannavarnir og öryggisráðið og það allt saman.