144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart í þessari umræðu að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs hafi athugasemdir við þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við önnur vestræn ríki. Það er afstaða sem lengi hefur legið fyrir og er þekkt.

Varðandi hins vegar ræðu hv. þingmanns þá er eitt atriði sem ég vildi nefna sérstaklega og það varðar þær hugmyndir sem uppi hafa verið og viðleitni til þess að auka samstarf norrænna þjóða á þessu sviði. Þar er auðvitað um að ræða stefnumörkun sem á sér nokkra sögu en hefur má segja fengið meira gildi nú vegna þess að stjórnvöld í þessum ríkjum hafa verið sammála um að aðstæður, sem hafa breyst á undanförnum missirum, kalli á aukinn viðbúnað af þeirra hálfu og aukið samstarf. Þetta aukna samstarf hefur birst bæði í pólitískum yfirlýsingum en líka getum við sagt í aukinni samvinnu í sambandi við æfingar, skipti á upplýsingum og þess háttar.

Ég held að þarna sé um að ræða jákvæða þróun. Ég held að það sé jákvætt fyrir okkur Íslendinga að efla samskipti við Norðurlöndin á þessu sviði, ég held að við getum haft mikið gagn af því. Legu landsins vegna er það eðlilegt en það er auðvitað líka eðlilegt í sögulegu ljósi, vegna þess að við ásamt Norðmönnum og Dönum höfum átt aðild að Atlantshafsbandalaginu og átt samstarf á þeim vettvangi lengi og samstarfið við hin Norðurlöndin sem hafa fylgt yfirlýstri hlutleysisstefnu, þ.e. Svía og Finna, hefur líka aukist um leið og samstarf þeirra við NATO (Forseti hringir.) hefur verið aukið til muna í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi hafa verið.