144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún ræddi NATO og virtist hafa sínar efasemdir um það, sem kemur svo sem ekki á óvart. En ég velti fyrir mér í ljósi þeirra atburða sem eiga sér stað núna hvort hv. þingmaður telji Íslandi betur borgið utan NATO. Þá finnst mér svolítið mikilvægt í þessu samhengi að við lítum á stöðuna eins og hún er núna, ekki bara sögulega samhengið þótt það sé vitaskuld mjög mikilvægt, heldur þá staðreynd að Rússland er — þetta er allt orðið svo yfirþyrmandi að það þyrfti að segja ansi mikið til þess að segja of mikið hér í pontu, en Rússland er að sýna klærnar eins og sést á allri hegðun þess.

Það var á sínum tíma þetta atriði með Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu og vissulega mætti ræða Georgíu og það sem gerðist þar klukkutímum saman. Síðan eru það atburðir á Krímskaga og núna Úkraínu. Og nú er svo komið að í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, sem eru NATO-lönd, er almenningur mjög hræddur við stríð, eðlilega.

Það sem ég velti fyrir mér þegar ég lít á kort og skoða NATO-löndin og þau lönd sem eru nálægt Rússlandi sem ekki eru í NATO, er: Hvaða lönd hafa mest að óttast? Ég held að ef þau lönd sem ekki eru í NATO þurfi síður að óttast Rússa en Eystrasaltsríkin og Pólland er það alfarið vegna þess að þau eru með nógu gott samstarf við NATO og/eða nógu stóra heri sjálf til þess að geta veitt einhvers konar mótvægi við það sem verður að kalla landsækni Rússa úr þessu. Ég velti fyrir mér skoðunum hv. þingmanns í þessu samhengi.