144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir að NATO er þegar allt kemur til alls hernaðarsamtök og varnarbandalög eru í eðli sínu alltaf í þeirri stöðu að þurfa að beita úrræðum sem verða að teljast til árása. Það er heimurinn sem við búum í.

Við erum mjög heppin á Íslandi að þurfa ekki almennt að pæla mjög mikið í því, það er mjög mikið gleðiefni. En ég hef enn þá mínar efasemdir um greiningu hv. þingmanns á þessu, þó vil ég taka fram að ég get bara tjáð mínar eigin skoðanir, minn flokkur hefur ekki útkljáð þetta eða rætt þetta að mér vitandi þannig að ég tala bara hér fyrir sjálfan mig.

Ég velti fyrir mér: Hvað ef Eystrasaltsríkin eða Pólland væru ekki í NATO? Teldi hv. þingmaður að þessi ríki væru öruggari utan NATO ef við gefum okkar þeirra stöðu? Ég spyr vegna þess að ég er einnig forvitinn um afstöðu þingmannsins til fyrirbærisins NATO, ekki eingöngu stöðu Íslands í NATO.