144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mig langaði fyrst og fremst að árétta hérna — og ég byrja á þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu — er að benda á að í 7. lið af þessum 10 segir, með leyfi forseta:

„Að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.“

Ef við horfum svo á flokk tvö, ógnir sem ég tel að þarfnast fullrar athygli, þá er það nú þannig að segja má að flokkur tvö heyri nánast undir akkúrat almannavarna- og öryggismálaráðið í sjálfu sér, fæðu- og matvælaöryggi o.s.frv. Sú stefna sem þar er í mótun núna um m.a. þessa þætti, mun þá falla inn í þjóðaröryggisstefnuna samkvæmt 7. lið. Það skýrir af hverju er ekki farið eins mikið út í þessa hluti eins og t.d. varðandi hernaðarógnina, varnarlið o.s.frv. Það er einfaldlega vegna þess að ekki er í þessari stefnu í sjálfu sér fjallað um farsóttir og þess háttar, heldur er það þessi innviðavörn sem annars staðar er. Síðan munum við fella hana inn í frekari vinnu við þjóðaröryggisstefnuna og að sjálfsögðu munu þessir aðilar koma þá að þjóðaröryggisráðinu. Ég vildi bara skýra þetta, að það er ákveðin ástæða fyrir því að minna er gert úr þessu þarna en mörgu öðru.