144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni ágæta ræðu. Ég segi fyrir mig að ég legg alltaf við hlustir þegar hv. þingmaður ræðir um málefni sem tengjast tölvum og upplýsingatækni vegna þess að hann hefur, í samanburði við mig að minnsta kosti, yfirburðaþekkingu á því sviði. Það er mjög áhugavert sem hann nefnir, sem við eigum að vita en erum kannski ekki nægilega meðvituð um, að netárásir af ýmsu tagi eru stöðugar, viðvarandi og koma frá aðilum sem geta haft mismunandi tilgang. Í sumum tilvikum og í allmörgum tilvikum er um að ræða einhverja sem eru að reyna að afla sér fjárhagslegs ávinnings af því. Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða hreina skemmdarverkastarfsemi og svo geta verið fjölmörg önnur sjónarmið eða fjölmargar aðrar hvatir sem þar að baki.

Ég held að það sé mjög gott að nálgast málið þannig að líta á þetta sem viðvarandi ógn eða viðvarandi ástand, getum við sagt, sem þarf að verjast með þeim ráðum sem við höfum tiltæk. Ég vildi kannski inna hv. þingmann aðeins eftir því hvernig hann sér fyrir sér að við getum stigið næstu skref eða hvernig við getum þróað áfram þá viðleitni sem er af hálfu okkar íslenskra stjórnvalda í samstarfi við aðra til þess að verja okkur eins og unnt er — þótt sennilega verði seint hægt að koma í veg fyrir að einhverjir komist á einhverjum tímapunkti í gegnum varnirnar.