144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mjög góð spurning. Það fer nefnilega svolítið eftir því hvaða aðilum við hyggjumst verjast. Ef við ætlum að verjast því sem við getum kallað handahófskenndum árásum eða öllu heldur árásum sem við getum ekki áttað okkur á fyrir fram í hvaða tilgangi eru gerðar, þær geta verið gerðar af fjárhagsástæðum, sem sé í fjárhagslegum tilgangi, stundum eru þetta skemmdarverk. Það hefur nú komið fyrir að síður á Íslandi hafa verið skemmdar vegna þess að menn halda að .is standi fyrir Ísrael, þannig að oft erum við hreinlega rangt skotmark.

En það sem mér finnst svolítið mikilvægt að við höfum í huga sem stjórnmálamenn er að hluti af ógninni kemur frá vinveittum þjóðum. Nú vona ég að þetta séu ekki miklar fréttir eða mjög sjokkerandi hér á hinu háa Alþingi, en tilfellið er í dag að njósnastofnanir hins vestræna heims, þar á meðal Bretlands og Bandaríkjanna sem eru nánir vinir okkar, stunda njósnir í mjög miklum mæli. Það er mikilvægt að mínu mati til að fyrirbyggja — hvað á maður að segja, við getum svo sem kallað það árásir, það gildir einu hvaða orð maður notar nákvæmlega um það, en það er að það sé pólitískt á hreinu hvað sé í lagi, hvað við værum reiðubúin til að samþykkja af þeirra hegðun.

Þegar kemur að ógnum sem eru bara einhvers staðar á netinu, segjum einhverjir hakkarar í Rússlandi eða Kína, þá verðum við að reiða okkur á öryggi sérfræðinga. Frá stjórnmálasjónarmiði er það ekki miklu flóknara en að eyða nógu miklum peningum í það og vera í nógu miklu samstarfi við nógu stóra aðila til að leysa það vandamál. En pólitíska vandamálið þegar kemur að njósnum gagnvart borgurum landsins snýr að samskiptum okkar við fyrst og fremst þau vinveittu risaríki, eins og Bandaríkin og Bretland, sem hafa mikla getu og vilja og sögu af því að beita upplýsingahertækni. Við þurfum því að vera duglegri að mínu mati við það að hafa það á hreinu hvað sé í lagi og hvað ekki af þeirra völdum.