144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri lýsa ánægju með að þessi tillaga er komin fram og ég tel að allt hafi þetta verið að þróast í heldur gæfulega átt, vinnan að utanríkismálum og mótun utanríkisstefnu hjá okkur. Friðvænlegra er yfir umræðum um þessi mál nú um stundir og meiri snertifletir en var á köflum fyrr á tímum. Það er svo sannarlega ánægjuefni og ég tel að í öllum aðalatriðum hafi nefndarstarfið sem skilaði af sér þessari afurð í gegnum tillögu hæstv. utanríkisráðherra verið farsælt og þeir sem að því komu eiga þökk skilda.

Í aðalatriðum er ég ágætlega sáttur við áherslurnar sem hér eru lagðar. Ég tel að þær séu mikil framför og á ég þá einkum við að öryggishugtakið er nálgast á breiðum grunni og á þessu er sterkur blær borgaralegrar og friðsamlegrar nálgunar í öryggismálum. Gamla kaldastríðshugsunin um að öryggismál væru bara spurning um vígbúnað, herbúnað og lítill gaumur gefinn að öðru hefur sem betur fer þokað verulega til hliðar. Ég get því tekið undir þetta með sama fyrirvara og systkini mín hafa gert í fyrri ræðum og formaður okkar gerði grein fyrir sem og með vísan til bókunar fulltrúa VG í nefndinni sem fylgir hér með.

Það er sláandi fyrir þessa þróun hvernig sú flokkun er sem hér er lögð niður varðandi hættur, hvaða vægi sem hún svo sem hefur. Í flokki eitt er umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, netógnir og náttúruhamfarir. Í flokki tvö er skipulögð glæpastarfsemi o.s.frv. og svo er flokkur þrjú, hættur sem ólíklegt er að steðji að Íslandi en mundu vega að fullveldi og sjálfstæði landsins. Þar er hernaðarógnin tekin með. Þessu er ég alveg hjartanlega sammála enda tel ég að nýliðin reynsla okkar sem þjóðar færi okkur heim sanninn um að það eru aðrir ógnir sem eru líklegri og standa okkur nær, t.d. efnahagsógn. Við vorum ósköp einfaldlega hársbreidd frá því að fara á hausinn fyrir ekki allt of mjög mörgum árum síðan og varla er hægt að kalla það annað en verulega ógn við a.m.k. efnahagslegt sjálfstæði og auðvitað efnahagslega velferð og öryggi íbúanna. Móðir náttúra hefur einnig hressilega minnt á sig þótt allt hafi það tekist skaplega en við höfum upplifað talsverða hrinu af verulega stórum atburðum á sviði náttúrunnar þar sem eru eldgos, jarðskjálftar og hamfaraveður sem hafa komið í þó nokkrum kippum á undanförnum árum.

Ég hlýt að fagna sérstaklega 9. tölulið tillögugreinarinnar um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Bara þetta hefur gildi í viðbót við það sem á undan er gengið. Auðvitað á það sér nokkuð langa sögu hvernig staða Íslands gagnvart kjarnorkuvopnum hefur þróast frá þeim tímum þegar stefnan var, gegnum kaldastríðstímann og veru bandaríska hersins, að hér skyldu þó ekki geymd kjarnorkuvopn á landi. Svo deildu menn stundum um hvort það væri nú alveg öruggt að það hefði verið virt. Það mun hafa verið einhvern tíma 1984 eða 1985 þegar sá sem hér stendur spurði hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Geir Hallgrímsson heitinn, að því hvort sú stefna tæki líka til hafna, ef hér kæmu skip í hafnir. Utanríkisráðherra kvað svo vera, það hlyti eiginlega að leiða af sjálfu, úr því að við vildum ekki að hér væru geymd vopn á landi þá mundum við væntanlega ekki heldur vilja þau inn í okkar hafnir. En þá voru tímarnir þannig að þetta þótti stórfrétt og því var slegið upp í amerískum stórblöðum að ef til vill væri Ísland að breyta þarna um stefnu og þetta setti strik í reikninginn hjá Kananum og NATO. Síðan hefur þetta verið má segja fest betur í sessi með ýmsum hætti. Þessu hefur ítrekað verið yfirlýst og Alþingi fjallað um það og sveitarfélögin nánast með tölu, ég veit ekki hvort þau eru tvö eða þrjú eftir, hafa fyrir sitt leyti sérstaklega friðlýst sín svæði og það hefur að sjálfsögðu gildi og vægi. Og loks er þetta komið hér, en þetta hefur ekki verið lögfest.

Þá kemur að tvennu sem var eiginlega tilefni þess að ég bað um orðið. Hið fyrra er að hér var nefnt mitt kæra Nýja-Sjáland. Ég hygg að hv. Birgitta Jónsdóttir hafi spurt í þeim efnum hvort þangað væri e.t.v. að sækja gott fordæmi fyrir því hvernig mætti lögfesta slíka friðlýsingu og svarið er auðvitað já. Það vill svo vel til að ég er sæmilega heima í því. Ég hafði nokkra viðdvöl í því landi á 8. áratug síðustu aldar, bjó þar í tvígang, fyrst í tæpt ár og aftur í nokkra mánuði, og fylgdist grannt með því þegar Nýsjálendingar tóku það djarfa skref að friðlýsa land sitt og lögsögu sína fyrir kjarnorkuvopnum. Af því varð nokkur hvellur því það kom uppstytta í samstarf Eyjaálfu, þá sérstaklega Nýja-Sjálands en að einhverju leyti líka Nýja-Sjálands og Ástralíu, við Bandaríkjamenn út af þessu máli. En Nýsjálendingar héldu sínu striki og lögfestu í ítarlegum lögum kjarnorkufriðlýsingu Nýja-Sjálands. Ég tók einmitt þau lög og þýddi yfir á íslensku og þau lögðu grunn að fyrsta frumvarpinu sem ég flutti um kjarnorkufriðlýsingu Íslands, það byggði mjög á löggjöf Nýja-Sjálands. Hún er nákvæmlega þannig úr gerði gerð, eins og síðan frumvarpið hefur síðan og hér er orðað í 9. tölulið, að kjarnorkufriðlýsingin er felld að skyldum Nýja-Sjálands hvað varðar alþjóðlega, friðsamlega umferð. Í einu tilviki eru þeir öðruvísi settir en við að þeir eru með mjótt sund milli Norðureyjar og Suðureyjar þannig að þeim ber skylda til að hleypa umferð í raun nær landi en við mundum þurfa að gera því það getur enginn fært fyrir því nein rök að hann þurfi t.d. að sigla inn fyrir 12 mílna landhelgi Íslands til að komast leiðar sinnar um Grænlandssund eða austan við landið. Við höfum rýmri stöðu til þess að færa þau mörk út a.m.k. til 12 mílna og lofthelginnar þar upp af.

Síðara tilefni þess að ég kem hér upp er að sem þessi tillaga kom nú fram varð mér hugsað til frumvarpsins góða sem ég hef aðeins verið að dusta rykið af undanfarna daga og hef ég í hyggju að leggja það fram, þá væntanlega í 11. sinn sem það yrði flutt á tæpum 30 árum. Tvö síðustu skiptin var það flutt af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og fleirum í fjarveru minni frá þinginu sem ráðherra og allan tímann hefur það notið víðtæks stuðnings. Þingmenn úr öllum starfandi þingflokkum að heitið getur á þessum tíma nema úr Sjálfstæðisflokknum hafa flutt málið og þar á meðal fyrrverandi formenn og þingflokksformenn Framsóknarflokksins og margir merkismenn, þannig að í klúbbnum er alveg skínandi stokkur af mönnum sem hafa gegnt hinum æðstu embættum og þar á meðal fyrrverandi utanríkisráðherrar, ég held að vísu ekki núverandi en munar litlu.

Með þeirri tillögu sem hér er, sem er stjórnartillaga og þar af leiðandi studd af báðum stjórnarflokkunum, verð ég að segja að ég sé ekkert sem ætti að vera í vegi þess að við lögfestum nú þá stefnu til frekari stuðnings henni og það er auðvitað eðlilegt að gera. Ég mun leita eftir meðflutningi að frumvarpinu frá þingmönnum úr öllum flokkum og vonast til að Sjálfstæðisflokkurinn geti verið með. Ég held að það sé engin ástæða lengur til fyrir einn eða neinn að hafa á því neina fyrirvara. Þetta er yfirlýst stefna sem nýtur óskoraðs stuðnings, vona ég, á Íslandi og við þurfum ekki að óttast neina viðkvæmni gagnvart einum eða neinum enda mundi það þá bara hafa sinn gang ef einhverjum þætti þetta bratt.

Á grundvelli fullveldisréttar okkar er algerlega hafið yfir allan vafa að þetta getum við gert og það hermir ekki upp á okkur neinar skuldbindingar gagnvart Atlantshafsbandalaginu eða öðrum svo fremi að við gerum þetta þannig að við virðum alþjóðalög hvað varðar siglingar og friðsamlega umferð og skyldur okkur gagnvart alþjóðahafréttarsáttmálanum og öðru slíku. Það er að sjálfsögðu auðvelt að gera og felur fyrst og fremst í sér skylduna til að leyfa friðsamlega og óhindraða gegnumför. Við getum gert athugasemdir ef menn ætla að setjast að inni í landhelginni þó á alþjóðlegum siglingaleiðum sé o.s.frv., en eins og Nýsjálendingar fóru að þessu á sínum tíma, og ég veit ekki til þess að rétturinn hafi breyst hvað það varðar, þá er skyldan sú að leyfa gegnumför í réttmætum tilgangi án óþarfadvalar þó um okkar landhelgi sé. Sama gegnir að sjálfsögðu um lofthelgina uppi yfir landinu og við gætum ýtt þessu a.m.k. út fyrir 12 mílur og mörkin þar upp af.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þeirrar umræðu sem hér varð um lögfestingu þessarar stefnu (Forseti hringir.) og ég held að það eina sem eftir er í raun og veru er að hnykkja á þessu með því að taka þetta í lög. Svo mætti auðvitað að sjálfsögðu skutla þessu inn í stjórnarskrána þegar þar að kemur.