144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

hugmyndir um stöðugleikaskatt.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Já, það er sem sagt búið að ákveða þetta, það á að leggja stöðugleikaskattinn á. Það er svolítið gaman að þessu. Ég og fleiri þingmenn sitjum í svokallaðri samráðsnefnd um afnám hafta. Nefndin virkar þannig að maður les bara í blöðunum hvað er að gerast í þessu ferli, fer á þessa fundi og fær svona frekar gömul tíðindi. En nú er ég sem sagt að heyra það alveg afdráttarlaust að búið er að ákveða að fara þessa leið stöðugleikaskattsins. Það er svolítið fyndið vegna þess að ég held að fundur sé boðaður í samráðsnefndinni á föstudaginn þar sem við eigum að hitta sérfræðinga til að fara yfir ýmis álitamál tengd þessari leið og ýmis stór álitamál, spurningar sem vöknuðu. Gott og vel. Það er svolítið fyndið að vera að fara í þannig samráð ef búið er að ákveða þetta sem sagt, en það er alveg afdráttarlaust.

En mig langaði að spyrja: Það var í fréttum að íslensk stjórnvöld hefðu verið í viðræðum við kröfuhafa í London, þetta var fréttaskýring í DV. Er það rétt?