144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

afnám verðtryggingar og fleiri stjórnaraðgerðir.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hér um tvö yfirgripsmikil mál. Ég byrja á því síðara, sama máli og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi, samráði vegna vinnu við afléttingu hafta. Þingmönnum hefur verið haldið upplýstum um gang mála, eða fulltrúum flokkanna réttara sagt, í gegnum hina pólitísku samráðsnefnd. Hins vegar dreg ég enga dul á það að það setti töluvert strik í reikninginn þegar eftir einn slíkan fund var farið að dreifa upplýsingum til fjölmiðla og jafnvel farið í viðtöl til þess að lýsa því sem gerðist á þeim fundi og raunar dregin upp á margan hátt röng mynd af því. Það varð til þess að menn hlutu að endurskoða hvernig upplýsingagjöf á þeim fundum væri háttað. Jafnframt hefur komið fram, svo ég víki aðeins aftur að fyrri fyrirspurn um svipað mál, að fleirum er haldið upplýstum eftir því sem tilefni þykir til, þar með talið kröfuhöfum sem voru upplýstir um stöðu mála í desember eins og kom fram í fjölmiðlum þá og hafa verið upplýstir í samræmi við það sem tilefni þykir til, í samræmi við það sem talið er óhætt að upplýsa um og viðeigandi. Þannig að það er sama til hvaða aðila þessa máls er litið, mönnum er haldið upplýstum í samræmi við tilefnið og það hvað óhætt er að upplýsa um.

Þá að fyrri spurningunni um verðtrygginguna. Ég gef mér að þar sé hv. þingmaður að vísa til fréttar í Fréttablaðinu, sem var einhvers konar framhaldsfrétt af frétt um svipað mál frá því í gær. Sú frétt var með fyrirsögn í þá veru að niðurfærslan eða leiðréttingin á fasteignalánum gæti horfið vegna verðbólgu. Svo las maður greinina og þá kom í ljós að innihaldið sagði allt annað og raunar þvert á (Forseti hringir.) móti.

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að klára svarið í þessari umferð. Ég reyni að gera það á eftir.