144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Því miður er það svo að fyrir okkur hv. þingmenn er afturendi hæstv. forsætisráðherra kunnuglegri en framhliðin því hann er alltaf á hlaupum út úr þessum sal í hvert sinn sem mikilvæg mál eru tekin til umræðu og við horfum á afturendann á honum hverfa. Það er auðvitað ekki í lagi, herra forseti, gagnvart Alþingi Íslendinga að hæstv. forsætisráðherra sé alltaf á hlaupum frá umræðum í þinginu, leyfi sér að koma með dylgjur og ásakanir í garð hv. þingmanna sem reyna að vinna af heilindum í samráði. Ég sé satt að segja enga ástæðu til þess að stjórnarandstaðan haldi áfram að taka þátt í einhverju sýndarsamráði þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnir ákvarðanir sínar á landsþingum Framsóknarflokksins en ekki í þessum samráðshópi, ekki í þessum þingsal, vegna þess að hann ber enga virðingu fyrir Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það finnst mér að virðulegi forseti ætti að taka til athugunar í störfum sínum sem forseti okkar allra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)