144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem í þennan ræðustól til þess að lýsa megnustu skömm á framgöngu hæstv. forsætisráðherra þegar hann bætir gráu ofan á svart með því að lítilsvirða þingið og þingmenn vitandi vel að hér mun fara fram umræða strax að loknum óundirbúnum fyrirspurnum og þá forðar hann sér úr salnum. Þetta er hneykslanleg framkoma. Þetta er þeim mun fráleitara þegar haft er í huga að eini maðurinn sem hefur virkilega farið glannalega fram opinberlega með viðkvæmar upplýsingar í þessu er sjálfur hæstv. forsætisráðherra. Á fundi í samráðsnefndinni fyrir um þremur vikum síðan vorum við sem þar sitjum upplýst um í trúnaði að menn væru farnir að skoða í grundvallaratriðum annars konar skattalega nálgun en unnið hafði verið með fram að þessu. Það fór ekkert einasta orð út um það fyrr en á flokksþingi Framsóknarflokksins. Þá var talað glannalega um að búið væri að ákveða stöðugleikaskatt sem við vissum ekki betur, sitjandi með sérfræðingum í (Forseti hringir.) undirbúningshópunum, að enn þá væru stórkostleg óútkljáð vandamál, lagaleg og jafnvel stjórnskipunarleg. En það var forsætisráðherra sem (Forseti hringir.) fór þessa leið og sagði hér núna úr þessum ræðustóli áðan að búið væri að ákveða þetta. Þá tek ég undir með öðrum sem hér hafa sagt, þá þarf ekkert samráð meira um það. Og ekki sakna ég þess.