144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Grípa inn í hvað? Hér er verið að fara með staðreyndir og ég verð að taka undir það sem hér var síðast sagt og ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forseta er vorkunn að þurfa að takast á við að ræða við hæstv. forsætisráðherra. Það er augljóslega ekki einfalt hlutverk því það höfum við reynt í þessum þingsal, það þarf að finna út hver getur talað við ráðherrann þannig að einhver bragur verði á þinghaldinu.

Við sinnum ýmsum störfum í samráði með stjórnarflokkunum og maður veltir því fyrir sér þegar framkoma forsætisráðherra er með þessum hætti hvort við eigum að hætta að taka þátt í samstarfi. Hvenær kemur að því að það þykir ekki þess virði að upplýsa okkur um einhver tiltekin atriði önnur en þau sem snúa að afnámi hafta?

Ég sat í þeirri nefnd fyrri part fyrsta árs þessarar ríkisstjórnar og fundirnir voru afar fáir og lítið sem þar kom fram annað en það, eins og hér hefur einmitt verið rakið, sem (Forseti hringir.) var þá þegar búið að koma annars staðar fram. Og það voru ekki stjórnarandstöðuþingmenn sem það upplýstu.