144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú hefur forseti hlustað á það sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan og ásakanir sem hann var með í sinni ræðu og einnig ásakanir aðstoðarmanns hans. Ég vil spyrja forseta hvort hann telji ekki ástæðu til þess að gera nú hlé á þessum fundi og fara yfir það með hæstv. forsætisráðherra og aðstoðarmanni hans hvernig staðan er og hvað viðhorf þeirra og það sem þeir hafa sagt hér þýðir fyrir þingstarfið og samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta er grafalvarlegt mál.

Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra er kominn í salinn. Ég vona að hann bregðist við því sem hér hefur verið sagt áður en dagur verður að kvöldi kominn.