144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir þessa umræðu, bæði hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra. Hér er góður samhljómur sem kemur svo sem ekki á óvart. Við ræðum oft á sviði heilbrigðismálanna um mikilvægi forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða og ég held að í þessu tilviki blasi það svo við að það er leitun að aðgerð innan heilbrigðiskerfisins sem hefur jafn sterkt fyrirbyggjandi eða forvarnagildi og það að leita að þessari algengu tegund krabbameins sem krabbamein í endaþarmi eða ristli er, alveg sérstaklega með hliðsjón af eðli þess og þeirri staðreynd að með því að greina það á forstigi eru lífslíkur góðar og miklir möguleikar á að bjarga mannslífum eða stórbæta lífsgæði þeirra sem ella mundu síðar glíma við miklu alvarlegri veikindi, ef ekki dauðsfall, með tilheyrandi kostnaði, vanlíðan og óþægindum. Það er örugglega ekki flókið að setja upp reikninga sem sýna fram á gífurlegan þjóðhagslegan ávinning. Það er væntanlega fljótreiknað að minni háttar aðgerð á forstigi borið saman við langa, erfiða sjúkdómslegu og vinnutap og allt það er dæmi sem augljóslega kemur þannig út.

Að sjálfsögðu skiptir langmestu máli að með þessu er hægt að forða ótímabærum dauðsföllum manna, jafnvel á ágætum aldri sem geta átt eftir mörg góð ár, hvort sem er á vinnumarkaði eða í einkalífi. Þess vegna ber allt að sama brunni í þessum efnum. Það er ágætt að heyra af þeirri undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið að undanförnu og mikið liggur fyrir um það hvernig standa mætti að þessari aðgerð. Fordæmin er ekki langt að sækja fyrir hliðstæðar leitar- eða skimunaraðgerðir og þar af leiðandi er það mín niðurstaða að það sem einfaldlega þurfi að gera sé að tryggja fjárveitingar í næstu fjárlögum (Forseti hringir.) til að hægt sé að hefjast handa af fullum krafti og þá veit ég að það góða fólk sem býr við fagþekkinguna mundi annast um málin. Það vefst ekki fyrir því að nota restina af árinu til að undirbúa framkvæmdina.