144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja umræðuna, en eins og fram hefur komið í þeim ræðum sem hafa verið fluttar eru það í kringum 130 einstaklingar að meðaltali sem greinast með ristilkrabbamein á ári hverju og 54 einstaklingar sem deyja, því miður, úr þessum sjúkdómi á ári hverju. 55% þeirra er greinast með sjúkdóminn eru karlmenn. Flestir sem greinast með ristilkrabbamein eru eldri en fimmtugir, meginþungi þeirra er greinast er eldri en 60 ára en meðalaldur þeirra er greinast er um 70 ár. Lífshorfur þeirra er greinast með krabbamein í ristli eru mismunandi. Það fer allt eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist alveg eins og er með aðrar tegundir af krabbameini.

Undanfarin ár hefur þó dánartíðni vegna krabbameinsins lækkað. Margir greinast núna fyrr en áður. Það getur vel verið af því að umræðan um þessa tegund krabbameins hefur verið opnari en áður, fólk er jafnvel meðvitaðra um þessa þætti en áður og eins og kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, ef ég tók rétt eftir, fara 10–12 þús. manns í skimun til að kanna þessa þætti.

Hafa verður í huga að ristilkrabbamein getur verið einkennalaust á fyrstu stigum sjúkdómsins og þess vegna er afar mikilvægt að hefja skipulega skimun fyrir meininu og þarf það að verða sem allra fyrst. Með skipulagðri skimun er hægt að fækka sjúkdómstilfellum verulega, sýnt hefur verið fram á að slík skimun geti lækkað dánartíðni hjá körlum um 73% vegna sjúkdómsins og hjá konum um 82%.

Það var afar ánægjulegt að lesa fréttir af því í Fréttablaðinu í morgun að nú þegar hafi Krabbameinsfélag Íslands ráðið meltingarlækni til að leggja grunn að skipulegri leit að krabbameini í ristli og til að undirbúa slíka leit í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa talað að þetta sé skref í rétta átt en það þarf meira til.