144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er mikill samhljómur meðal ræðumanna um þetta mikilsverða mál. Ég ætla aðeins að upplýsa betur um tölur. Það er unnið samkvæmt tillögum frá ráðgjafarhópnum 2009 og vinnan sem nú stendur yfir gengur út á að uppfæra þær áætlanir og gera þær þannig úr garði að við getum hafist handa. Þess vegna er þessi ráðning starfsmanns hjá Krabbameinsfélaginu lykilatriði í þeim málum. Og til að svara spurningu þar að lútandi: Við erum í samstarfi við Krabbameinsfélagið, embætti landlæknis og sérfræðinga á þessum sviðum og ætlum að reyna að stilla þetta einhvern veginn saman þannig að við getum farið til verka.

Það kann vel að vera að það sé æskilegt að byrja neðar en við sextugt en um það verður fagfólkið að koma með tillögur. Í tillögunni á sínum tíma var unnið með 60–69 ára.

Varðandi upplýsingar um ristilspeglunina sem er næsta stig fyrir ofan skimunina voru árið 2013 um 12 þús. manns sem fóru til þess, 14 þúsund á árinu 2014. Þetta er án spítala og félagasamtaka þannig að það er umtalsverður fjöldi fólks sem hefur gengið til þessa verks á sínum eigin forsendum. Kostnaður ríkisins af þessum speglunum nam á árinu 2014 tæpum 120 milljónum, 65% af kostnaði við speglunina. Það eru nú þegar ákveðnir fjármunir í þessu en ég fagna þeim vilja sem hér hefur komið fram til þess að vinna betur í því að mikilvægi þessa þáttar heilbrigðisþjónustunnar geti orðið að veruleika. Eins og ég segi er tillaga (Forseti hringir.) mín til ráðuneytisins að við getum hafist handa um leið og vinnu þessara fagaðila lýkur og ég vona að það geti orðið á þessu ári.