144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég er sammála því að þetta mál eigi heima í umhverfis- og samgöngunefnd vegna þess að í 13. gr. þingskapa, um nefndir, er sagt um umhverfis- og samgöngunefnd, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.“

Svo er fleira sem kemur þessu máli ekki við.

Allsherjar- og menntamálanefnd á að fjalla um „dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál, málefni þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og jafnréttismál, svo og um mennta- og menningarmál og vísinda- og tæknimál“. Þess vegna segi ég að hin rétta nefnd sé að sjálfsögðu umhverfis- og samgöngunefnd, alveg eins og þar er fjallað um byggðamál en byggðaáætlun hefur hingað til verið vísað til atvinnuveganefndar. Hún á samkvæmt þessu sem við höfum samþykkt, sem eru lög frá Alþingi, heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Þessi verkaskipting er tiltölulega ný og eftir henni verðum við að fara, virðulegi forseti. Þess vegna styð ég að þessu máli sé vísað til (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar.