144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held í fullri vinsemd að það sé ákveðinn misskilningur fólginn í því að senda þetta mál til allsherjar- og menntamálanefndar. Sannarlega er hér verið að fjalla um vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi en frumvarpið snýst um og snertir bara skipulagslöggjöfina. Skipulagslöggjöfin er á borði umhverfis- og samgöngunefndar og málefni sveitarfélaganna og þar þarf að bera saman við viðfangsefni sem eru á hendi nefndarinnar á hverjum degi sem eru bæði skipulagsmálin og málefni sveitarfélaganna. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra skipulagsmála sé til dæmis meðvituð um að í þessu frumvarpi forsætisráðherra er lagt til að 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé felld brott eins og hún leggur sig og það er eini staðurinn í skipulagslögum þar sem orðið hverfisskipulag kemur fyrir sem er sérstakt nýmæli (Forseti hringir.) í skipulagslögunum 2010 sem voru sett í breiðu pólitísku samráði, bæði í þinginu og gagnvart sveitarfélögunum, og hér er lagt til með einu pennastriki að verði tekið út.

Ég legg áherslu á að þetta er málefnaleg tillaga sem ég tel að sé vel rökstudd.