144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:12]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisplagg að mörgu leyti en mér finnst það samt frekar óljóst og kannski ekki eins og til var ætlast. Ég sé til dæmis enga meginskiptingu útgjaldaramma fyrir fjárlagaárið 2016 eins og á að leggja fram. Ef til vill á hæstv. ráðherra eftir að koma með það og við bíðum þá bara eftir því í fjárlaganefnd.

Það vekur athygli mína á bls. 22 þar sem talað er um vaxtakostnað hins opinbera á Íslandi að hann er meiri en allra aðildarríkja Evrópusambandsins, hvort sem er sem hlutfall af heildarútgjöldum eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, meiri en í Grikklandi sem oft er nefnt. Svo segir hér:

„Brýnasta viðfangsefnið í stjórn ríkisfjármálanna er að vinda ofan af gríðarmiklum skuldum sem ríkið axlaði í kjölfar bankahrunsins …“

Ég er algjörlega sammála þessu markmiði en hlýt þá að spyrja: Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra réttlætt það að hafa farið í skuldaniðurfellingu sem kostar ríkissjóð örugglega hátt í 100 milljarða þegar upp er staðið ef brýnasta verkefnið er að greiða niður skuldir ríkisins?

Hér segir líka þegar talað er um þennan vaxtakostnað að þetta háa hlutfall gefi til kynna að vaxtakjörin sem okkur bjóðast séu lakari en önnur ríki hafi aðgang að. Það hlýtur líka að vera mikið áhyggjuefni og hvort við sjáum eitthvað til sólar í þeim efnum. Við vitum líka að vaxtastig er almennt lágt, en það getur hækkað og mun eflaust hækka og það mun hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir okkur. Það vill okkur kannski til happs hvað vaxtastig er þó lágt, en við fáum greinilega ekki sömu kjör og öðrum bjóðast. Gæti hæstv. ráðherra aðeins svarað þessum hugleiðingum?