144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta með að setja útgjaldaramma fyrir ráðuneytin er náttúrlega það sem við ætlum að gera verði nýju lögin um opinber fjármál að veruleika þannig að við getum alveg eins farið að venja okkur við það.

Mig langar að spyrja svo margra spurninga. Á bls. 40 er talað um óreglulega liði sem eru ansi margir og geta tæpast allir flokkast undir óreglulega liði. Þá er ég til dæmis að tala um framlög til Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðsskuldbindingar. Ég sakna þess varðandi Íbúðalánasjóð að honum sé mótuð einhver framtíðarstefna vegna þess að það eru risastórar upphæðir sem í rauninni er ekkert fast í hendi með. Eins er með lífeyrissjóðsskuldbindingar. Það kemur fram einhvers staðar, ég man ekki nákvæmlega hvar, að það eigi að greiða inn á B-deildina sem er mjög gott en ég skildi ekki alveg út frá textanum hvort það átti að nota rekstrarafgang í að greiða inn á B-deildina eða hvort átti að taka lán til þess. Mér fannst það ekki alveg nógu skýrt. Ég vænti þess ekki að hæstv. ráðherra hafi þetta allt í kollinum, en mér finnst sérstaklega vanta stefnu varðandi Íbúðalánasjóð. Hér er bara gert ráð fyrir að hann muni ekki kosta ríkissjóð neitt á árinu 2018 og ekkert á árinu 2019. (Forseti hringir.) Mér finnst það varla raunhæft.