144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, við gerum ráð fyrir því að í framtíðinni vinnum við með þessi mál á grundvelli ramma fyrir einstök ráðuneyti og málefnasvið. Við erum hins vegar ekki komin svo langt í dag og eigum eftir að afgreiða það frumvarp. Það liggur fyrir að það mun þurfa að styrkja stjórnsýsluna töluvert til að við séum í færum til þess að vinna slíka vinnu og slíka áætlanagerð.

Varðandi Íbúðalánasjóð eru tölurnar í þessu frumvarpi byggðar á nýjustu upplýsingum um stöðu sjóðsins sem hefur aðeins vænkast. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að þurfa ekki að setja frekara fé í sjóðinn. Hvað sem líður áformum um framtíðarfyrirkomulag þeirra mála er það samt sem áður lykilatriði að í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir því að áfram fari jafn háar fjárhæðir og áður í að styðja við sjóðinn.

Varðandi innborgun á lífeyrisskuldbindingar er gert ráð fyrir því að þær hefjist 2017 og það verði myndað til þess svigrúm (Forseti hringir.) á greiðslujöfnuði með bættri afkomu.