144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé fyllsta ástæða til að taka undir fögnuð hæstv. ráðherra yfir því að þessi þingsályktunartillaga er lögð fram í fyrsta sinn. Það er mikið framfaraskref eins og kom fram í máli hans þótt vafalaust megi svo laga skjalið og gera það öðruvísi þegar reynsla kemst á í þessu efni. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, kemst eiginlega ekki hjá því vegna þess að það segir að skuldastaðan lækki umtalsvert á tímabilinu og að verg þjóðarframleiðsla muni hækka um 25% á tímabilinu 2016–2019. Nafnvirði skulda lækkar um 10%, en eftir því sem ég best fæ séð vegur þar mjög hátt salan á 30% hlut í Landsbankanum.

Á flokksþingi samstarfsflokks ráðherrans, Framsóknarflokksins, var boðað að Landsbankinn yrði ekki seldur heldur gerður úr honum einhvers konar banki sem yrði rekinn á samfélagsgrunni, sem getur verið góð og gegn tillaga, en sú tillaga hlýtur að hafa áhrif á fyrirhugaða sölu Landsbankans. Hvaða áhrif hefur sú tillaga á lækkun skuldastöðunnar?