144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er vakið máls á mjög mikilvægu atriði sem er framleiðnin í íslenska hagkerfinu. Í ferðaþjónustu hefur framleiðni víðast hvar verið tiltölulega lág og ekki verið mjög hátt meðallaunastig, en við getum reynt að hafa áhrif á þetta með réttum ákvörðunum hér heima fyrir. Vonandi heldur þessi grein áfram að vaxa og dafna, getur greitt góð laun og skilað góðri arðsemi. Það mun áfram skila sér til ríkisins með beinum og óbeinum hætti í skattgreiðslum og vegna aukinna umsvifa en ég tek undir með hv. þingmanni, það er ástæða til að styðja við allt það sem getur aukið framleiðni í ferðaþjónustunni og að hún byggist þannig upp að við fáum meiri verðmæti samhliða þessum mikla vexti. Hann er ótrúlegur. Á þessu ári mun bætast við frá því í fyrra fjöldi sem (Forseti hringir.) nemur helmingi allra ferðamanna árið 2006. Það er bara viðbótin frá árinu í fyrra. Slíkur er vöxturinn í þessari grein. (Forseti hringir.) Það er byrjað að skila sér víða.