144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þessi langtímaáætlun er tekin saman er í sjálfu sér ekki í gildi nein samgönguáætlun en hún er ein áætlunin um uppbyggingu og fjárfestingu í vegakerfinu og annars staðar í samgöngumálum og er nú að koma fyrir þingið frá innanríkisráðherra til næstu ára. Hún er eitt púslið í þessari stóru mynd. Annað er það sem ég nefndi að við ætlum að setja í samkeppnissjóðina. Það skiptir verulegu máli. Þriðja sem mætti nefna eru einstakar stærri byggingar sem eru áform um að reisa eins og Hús íslenskra fræða sem ég vonast til að menn nái saman um að þurfi að rísa. Svo er á prjónunum að fara í töluvert mikla uppbyggingu á sjúkrahúsi landsmanna, Landspítalanum, sem er ekki komið þarna inn enda kannski ekki búið að fara í nauðsynlega undirbúningsvinnu (Forseti hringir.) til að það sé komið beinlínis inn í tölur af þessum toga. En þarna þarf maður að fara að huga að því að (Forseti hringir.) umsvif ríkisins verði ekki til þess að raska öðrum markmiðum í þessari langtímaáætlun, ef við tökum ákvarðanir um að verja of miklu í fjárfestingar gæti þurft að skera niður fyrir því þannig að svigrúm yrði fyrir það í rekstrinum.