144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágætt og reyndar mikið fagnaðarefni að við getum tekið sérstaka umræðu um stóru myndina sem er akkúrat það sem hv. þingmaður var að gera, hvernig þessi hlutföll eru að þróast, heildarafgangurinn og annað án þess að við séum með undirframlög til einstakra stofnana.

Fyrst varðandi það sem gerðist á síðasta kjörtímabili, þá var að sjálfsögðu alltaf ljóst að eftir svona mikinn samdrátt, eftir að við rötuðum inn í krísu, mundum við aftur fara að rísa. Það lá alltaf fyrir. Okkar gagnrýni snerist um að menn væru að leggja of miklar byrðar á heimilin og atvinnustarfsemina með nýjum sköttum sem ollu því aftur að viðsnúningurinn var of hægur miðað við það sem aðstæður leyfðu og við bentum á aðrar leiðir. Það er hluti af fortíðinni.

Ég sé ekki betur en að hv. þingmaður sé að segja að við ættum að skila bæði meiri afgangi og hærra útgjaldastigi. Þá leiðir af þeirri niðurstöðu að það ættu að vera hærri skattar á Íslandi. Því er ég ósammála. Ég tel alveg gríðarlega mikilvægt að við lyftum undir með atvinnustarfseminni og léttum af heimilunum þeim sköttum sem sérstaklega voru lagðir á báða þessa aðila í tengslum við samdráttarskeiðið og að það sé einmitt ein forsenda þess að kaupmáttur er aftur tekinn að vaxa.

Það var fyrst á síðasta ári sem við náðum aftur landsframleiðslunni í þá tölu sem hún fór hæst í fyrir hrunið og það var einnig á síðasta ári sem við komumst fyrst aftur í hæsta kaupmátt sem verið hefur í sögunni. Við náðum aftur kaupmætti sem hafði tapast í hruninu og eins og hann hafði mælst bestur.

Það sem ég vil síðan segja almennt um stöðuna til viðbótar við það sem áður hefur komið fram er að ég held þegar við horfum fram á veginn núna að við Íslendingar höfum aldrei verið í jafn sterkri stöðu vegna þess að grundvallarstærðirnar í hagkerfinu eru í það góðu jafnvægi. Góðærið sem svo var nefnt 2006–2007 var byggt á miklum viðskiptahalla. Hérna erum við (Forseti hringir.) með grunnstærðirnar í jafnvægi og erum að sigla inn í slíkt tímabil ef helstu forsendur halda.