144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé mjög fróðleg umræða sem við getum átt hérna. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, áherslurnar í þessu koma mér ekki á óvart. Það birtist bara það sem hefur birst okkur í þeim fjárlagafrumvörpum sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram. Eins og það er ánægjulegt að þessi áætlun liggi fyrir og við sjáum fram í tímann er maður ekkert endilega mjög ánægður með allt sem kemur fram í henni.

Hv. þingmaður minntist sérstaklega á að samneyslan lækkar á því tímabili sem þessi áætlun nær til. Mig langar bara að segja: Þarf það nokkuð að koma okkur á óvart? Er það ekki einmitt það sem við eigum von á frá þeirri ríkisstjórn sem núna er? Þegar við tölum um þessa áætlun koma hinar pólitísku áherslur mjög glögglega í ljós og sú þróun sem hefur verið undanfarið, að það á að leggja minni áherslu á þá sem minna hafa en auka um leið ráðstöfunatekjur þeirra sem meira hafa. Það er talað um að það eigi að breyta tekjuskattskerfinu. Það hlýtur að vera í þá átt að fara í eitt þrep. Hér segir að það skili meiri skilvirkni en það dregur á hinn bóginn líka úr tekjujöfnun skattkerfisins og við (Forseti hringir.) skiptum einhvern veginn á þessu. Mig langaði aðeins að heyra hvort þingmaðurinn (Forseti hringir.) sé ekki sammála mér um að við þurfum ekki að vera hissa á því sem hér kemur fram.

(Forseti (ÓP): Forseti vill að gefnu tilefni minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)