144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi það hvenær hægt er að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins tel ég að það séu ekki raunverulegar aðstæður til að gera það fyrr en við erum með jákvæðan greiðslujöfnuð. Áætlunin miðar við að við hefjum innborgun frá og með árinu 2017, sem ég hefði svo gjarnan viljað hafa frá og með árinu 2016, en engu að síður verði frá og með því ári byrjað að greiða inn á þessar skuldbindingar og því þannig ýtt lengra inn í framtíðina að þetta lendi að fullu á ríkinu. Í mínum huga er með þessu tekin ákvörðun um að hefja innborganir sem síðan verða þá að koma árlega í framhaldinu, ella telur þetta lítið. Að sama skapi er hægt að ná gríðarlega miklum árangri, eins og lesa má í síðustu ársskýrslu LSR, með því að greiða reglulega inn á svona skuldbindingar er hægt að forða því að þetta lendi á ríkinu um mörg ár, ef ekki áratugi.

Síðara atriðinu sem spurt var út í er stolið úr mér í augnablikinu … (BjG: S-merktu lyfin.) — Já, S-merktu lyfin. Það sem ég vildi segja um þau er að þau jákvæðu teikn eru nú á lofti að við séum að ná tökum á þeim kostnaði. Það hefur meðal annars birst í sundurliðun frá Landspítalanum og Sjúkratryggingum að áætlanir eru farnar að standast mun betur en áður var og það er ekki gert ráð fyrir því að við förum fram úr með (Forseti hringir.) sambærilegum hætti og lengi hefur verið. Það hefur náðst mikill árangur í því að fá áætlanir til að standast í S-merktu lyfjunum.