144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að ríkisfjármálin hafa farið batnandi, sem betur fer, eins og hér var rakið áðan. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið.

Það eru samt sem áður alltaf nokkur mál sem pólitíkin tekur eðlilega mismunandi á og ég velti því þá upp núna, þó að auðvitað geti hæstv. ráðherra ekki komið í andsvar við mig, hvort við sjáum til dæmis á næsta ári, á þessum tíma af því að hér er talað um að við eigum að ræða stóru málin, heildarmyndina o.s.frv., það að við gætum rætt málin betur. Hér á að klára þessi mál af hálfu ríkisstjórnarinnar seinni partinn í maí og í byrjun júní. Ég skildi þetta þannig að við mundum ræða rammana á vorþingi miðað við þetta hugsanlega frumvarp til laga um opinber fjármál og síðan tækjum við dýpri umræðu um haustið en ekki að þá færi hún nánast öll fram. Ég lít svo á að hún fari öll fram næsta haust miðað við það sem við höfum hér í höndunum. Mér finnst þetta að mörgu leyti mjög götótt plagg.

Rétt í restina vil ég vísa í bls. 26 þar sem talað er um stóra hluti hækkunar á tekjum og gjöldum frá fyrri áætlun. Þá má rekja til breytinga við 2. og 3. umr. fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015. Þessi afkomumarkmið sem við höfum gjarnan miðað við geta aukið umsvif í ríkisrekstrinum og það er ekkert endilega í samræmi við frumvarpið um opinber fjármál þannig að ég held að við séum flest á því að það geti þurft að breyta þeim viðmiðum þegar við leggjum fram ríkisreikninginn og miða okkur við það að heildarumfangið aukist kannski ekki.