144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki alveg svara spurningu minni um hvort það sé svigrúm í þessum fjárfestingum, hvort hann telji þarna örugglega fé fyrir byggingu Landspítalans.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um eftirlitsiðnaðinn sem hann segir að við eyðum of miklum peningum í. Þar er ég alveg ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að til þess að við getum notað markaðskerfið þurfum við eftirlit með markaðnum. Við þurfum samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit og lyfjaeftirlit, við þurfum alls konar eftirlit til þess að geta sett ákveðin verkefni út á markaðinn en séum ekki að kúldrast með allt í einhvers konar ríkisrekstri. Þess vegna tel ég eftirlitsstofnanir skipta mjög miklu máli. Er alveg ómögulegt að fá hv. þingmann til að vera mér þótt ekki sé nema pínulítið sammála í þeim efnum? Lærðum við ekkert á því að hér fékk markaðurinn að valsa um, að eftirlitið klikkaði og við fórum næstum því á hausinn? Ætlum við ekkert að læra af því?