144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Slík tillaga er ályktun og lögð fram í samræmi við 6. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis og verið að framfylgja hér í fyrsta sinn. Þetta eru ákveðin tímamót, eins og fram hefur komið í umræðunni, og er það vel. Eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í umræðunni vil ég taka undir þau orð. Í samræmi við þessa grein þingskapa leggur hæstv. fjármálaráðherra nú fram ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára. Þetta er stóra myndin og hún vekur alltaf upp umræður eins og þá sem við hlustuðum á hjá ræðumanni sem á undan mér fór, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem svaraði andsvari hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um eftirlit. Umræðan vekur eðli málsins samkvæmt, þegar við erum að skoða hér stóru myndina, upp umræður um hin ýmsu mál. Ég fagna því. Það er afar mikilvægt fyrir alla fjárlagavinnu og allt fjárlagaferlið, sem þegar er hafið fyrir næsta ár, að við förum tímanlega yfir þessa mynd. Það er tímabært að við fylgjum slíku stefnumótandi ferli og eflum áætlun tengda fjárlögum og þeirri stefnu sem unnið er eftir. Auðvitað eru ýmsar mikilvægar ákvarðanir sem munu koma til með að hafa áhrif á áætlunina eins og hún liggur fyrir hér og gang ríkisfjármálanna. Við getum nefnt kjarasamninga, við getum nefnt niðurstöðu í aðgerðum tengdum húsnæðismálum, losun hafta, kannski ekki hvað síst losun haftanna en þar er mikilvægast að verja þann stöðugleika sem hefur náðst. Eins og ég kom inn á kallar svona áætlun og það að fara tímanlega í gegnum hana fram skýrari mynd af stöðunni þannig að vinnan er fremur til þess fallin að ríkisfjármál verði undir meiri stefnufestu. Við getum séð hvernig viðsnúningurinn verður til, á hvaða forsendum, til hvers við ættum helst að nota það svigrúm sem birtist í þessari áætlun og fylgja því eftir hvernig áætlunin gangi eftir.

Virðulegi forseti. Það er jafnframt mikilvægt fyrir alla, ekki einvörðungu þá sem til að mynda eru hér á vegum þingsins í fjárlaganefnd eða þá sem koma að vinnu fjárlaga frá hlið framkvæmdarvaldsins, í ráðuneytum og stofnunum, að átta sig á meginlínum og helstu stærðum er varða tekjuöflun ríkisins, útgjaldaskiptingu og skuldaþróun. Áætlun um tekjuafgang næstu fjögur árin til viðbótar við afgang sem náðst hefur á undangengnum tveimur fjárlagamissirum, sú jákvæða afkoma á og er reyndar markmið um að bæta lífskjörin í landinu. Það er stóra markmiðið og það vegur þungt að vera í færum til þess samhliða því að ná niður skuldum ríkissjóðs þegar við erum að tala um að bæta lífskjör til að geta byggt enn frekar upp og styrkt okkar samfélagslegu innviði, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, menntamál og samgöngur. Áætlunin dregur að mínu viti mjög vel fram bæði í texta- og talnaformi þær meginlínur sem við getum og þurfum að glöggva okkur á í þessu samhengi og stefnum að.

Hér eru ýmis atriði sem væri þess virði að fara nánar og af meiri dýpt í. Ég vil nefna kafla um fjárfestingar á bls. 6. Hér hefur verið komið inn á að fjárfestingar væru ekki nægar og ég tek undir að það er eðlilegt að hafa af því áhyggjur að fjárfestingar muni ekki halda í við afskriftir. Hvað þýðir það? Það þýðir mögulega hnignun til framtíðar, þ.e. minna svigrúm til að auka hér raunvöxt og bæta lífskjör. Hæstv. ríkisstjórn hefur bætt í varðandi samkeppnissjóðina og það er mjög mikilvægt að atvinnuvegafjárfestingin aukist og þau markmið sem hið opinbera hefur uppi um hana. Fjárfestingaráætlun sem sérliður sem hluti af heildaráætlun í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við erum að skoða er því mjög mikilvæg. Það blasir við að það þarf að fara í mjög gaumgæfilega umræðu um þau mál og horfa til framtíðar í þeim efnum, stefna að því að fjárfesting hér verði umfram eðlilega endurfjárfestingu eða afskriftir, hvernig sem við orðum það.

Þetta er liður á bls. 6, virðulegi forseti. Síðan er rætt á bls. 14 um framtíðarhagvöxt. Ég vil meina að á undanförnum árum hafi tekist ágætlega að byggja hér undir grunnstoðirnar. Þá er ég að tala um atvinnulífið, fyrirtækin og heimilin og batnandi horfur í þeim efnum.

Á bls. 26 kemur fram að á þessu ári, 2015, er um að ræða horfur um betri afkomu en lagt var upp með og ekki síst fyrir aukinn þrótt á vinnumarkaði. Það er auðvitað mjög vel. Ég hef ekki farið neitt gaumgæfilega yfir þær tölur sem liggja þar að baki en þetta er allt þess virði að skoða.

Á bls. 34 er rætt um skattstefnu. Þegar við erum að tala um samhengi áætlunarinnar og stefnu birtist það í þessu og þar tek ég sérstaklega fram áætlun um lækkun tryggingagjalds sem ég tel mjög mikilvæga til að byggja upp atvinnulífið í framhaldinu.

Svo hefur í umræðunni verið kallað eftir útgjaldaáætlun og að hún hefði mátt vera nánar sundurliðuð. Ég trúi því að það verði á næstu árum, þá munum við sjá þá sundurliðun, ég tala nú ekki um ef við förum inn í það umhverfi sem stefnt er að með frumvarpi til laga um opinber fjármál, að þau heldur betur setji upp ramma sem stilli af agann. Ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um að hann skipti miklu máli í allri fjárlagagerð og ríkisfjármálum.

Ég vil nota tækifærið og fagna því að þingsályktunartillaga um ríkisfjármálaáætlun komi inn í þingið á þessum tímapunkti. Ég tel að sú áætlun komi til með að verða mjög gagnleg við alla þá vinnu sem er gegnumgangandi við að framfylgja stefnu í ríkisfjármálum.