144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að atvinnulífið hefði kannski æskt þess að sjá tryggingagjaldið lækka meira en raun ber vitni. Það kemur mér reyndar á óvart, og kom mér á óvart í síðasta fjárlagafrumvarpi líka, að þessi ríkisstjórn leggi ekki meiri áherslu á að lækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið hjálpar nefnilega litlu fyrirtækjunum. Það skiptir svo miklu máli að þau plumi sig eins og sagt er.

Það kemur fram í þessari tillögu að samneysla dregst saman á þessu tímabili. Hv. þingmaður er félagslega sinnaður að einhverju leyti, trúi ég, og ég spyr: Hvaða afstöðu hefur hann til þess að það er auðsjáanlega verið að draga úr samneyslu og minnka hinn félagslega (Forseti hringir.) þátt í þjóðfélaginu? Hvað finnst honum um það?