144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir spurninguna. Þetta er risastór spurning og það er mjög ánægjulegt að fá svo stóra spurningu. Varðandi samvinnuna er mín upplifun hér, ég hef ekki jafn langa þingreynslu og hv. þingmaður, að það skorti ekki á samvinnu. Það skortir kannski frekar á samstöðu. Ég horfi á samstöðu þegar búið er að taka ákvörðun um eitthvað eins og stefnu, þ.e. að leita eftir samstöðu til að láta stefnuna ganga upp. Það getur oft orðið vandasamt í pólitíkinni.

Glíma við stóru vandamálin? Ég skil áhyggjur varðandi leiðréttinguna, að hún étist upp, en hins vegar er þó sú leiðrétting sem farið var í mjög mikilvæg einmitt í þessu máli (Forseti hringir.) vegna þess að hún verður ekki tekin af og ver í raun og veru heimilin að þeim hluta sem leiðrétt var fyrir.