144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók sérstaklega eftir varnaðarorðum hv. þingmanns um að það bæri að tala varlega þegar við tölum um ríkisbúskapinn, kannski ekki síst þegar við, eins og kom glögglega fram í ræðu hæstv. ráðherra og kemur svo sem fram í þessu plaggi, stefnum hér inn í kannski bestu ár Íslands „ever“. Ég biðst afsökunar, virðulegi forseti, á að hafa slett.

Hv. þingmaður nefnir óvissuatriði. Hún nefnir fjármagnshöftin sem ekki er búið að leysa, þau eru náttúrlega óvissuatriði. Getur hún aðeins útskýrt hvað mundi rjúka upp?

Hún nefnir einnig kjaradeilurnar sem núna standa yfir. Nú var til dæmis verið að semja um bónusa sem hækka launin um 9–10% hjá HB Granda, held ég, á Akranesi. Ég fagna því, en segjum að opinberir starfsmenn næðu launahækkun — ég held að það sé mjög óráðlegt að gera ráð fyrir að þeir nái ekki einhverju meiru en þessum 3,5% sem ríkið býður þeim núna — hvaða áhrif hefði til dæmis 5% hækkun? Hefur hún einhverja hugmynd um hvaða áhrif það hefði? Mundi það kollvarpa þessu? Getum við þá átt von á að við þurfum að fá nýja áætlun (Forseti hringir.) seinna í vor eða í haust?