144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeim áhyggjum sem komu fram í máli hv. þingmanns um þróun samneyslunnar. Við Steingrímur J. Sigfússon áttum samtal hérna fyrr í dag og veltum fyrir okkur hvort framsóknarmenn áttuðu sig á því hvað er boðað í þessu plaggi. Þetta er tímamótaplagg að því leytinu til að þarna fáum við ramma um það hvernig ríkisstjórnin hugsar sér að nota fjármuni og fara með ríkisbúskapinn. Það er fróðlegt að tala um það en þá veltir maður fyrir sér hvort samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins viti hvert stefni. Samneyslan er lítil, hún lækkar. Mig minnir að annars staðar á Norðurlöndunum og víða í kringum okkur sé samneyslan miklu nær því að vera 30% en 25%. Veit hv. þingmaður eitthvað meira um þetta og getur frætt mig nánar um það?