144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún talaði um atvinnuleysi. Það kemur fram í þessari ríkisfjármálaáætlun að atvinnuleysi hefur minnkað hjá grunnskólamenntuðum og hjá iðnaðarmönnum en hefur hins vegar vaxið hjá háskólamenntuðum. Háskólamenntaðir eru núna 23% af atvinnulausum og síðustu tvö árin hefur atvinnuleysi aukist þar mikið, þ.e. um 5% á ári, sem hlýtur að vera áhyggjuefni. Það er lagt út af því í greinargerð með áætluninni að ástæðan sé sú að það sé ekki næg framleiðni í kerfinu sem sé vegna eðlis þeirrar atvinnugreinar sem vaxið hefur hér mest, ferðaþjónustunnar. Núna er ferðaþjónustan orðin stærsta útflutningsgreinin, ef svo má segja, og hefur verið það síðan árið 2013. Við í stjórnarandstöðunni höfum í þingsal kallað eftir því að rekstrarumhverfi greinarinnar sé skoðað, greinar sem stækkar svona mikið, og leiddar að því líkur að hún sé ekki skattlögð nægilega, ef svo má segja. Hún nýtur ívilnunar og stendur þannig ekki jafnfætis öðrum atvinnugreinum þegar kemur að skattlagningu.

Í ríkisfjármálaáætluninni eru engar áætlanir um það hvernig þróunin hjá þessari atvinnugrein eigi að vera og hvernig eigi að bregðast við þessum skorti á framleiðnivexti. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að það þurfi að taka á því og að það sé galli á áætluninni að ekki sé tekið á þessu stóra máli.