144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við fögnum því og ég held að allir hafi fagnað því í dag að við fáum að ræða ríkisfjármálaáætlunina á þessum tímapunkti en ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að maður sjái ekki nægilega vel í áætluninni hvaða pláss helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar taka í útgjöldunum eða á tekjuhliðinni. Mikilvæg mál sem við erum að bíða eftir að komi inn í þingið eru húsnæðismálin, stefnumál ríkisstjórnarinnar sem boðað hefur verið að komi inn í þingið. Hæstv. húsnæðismálaráðherra talar bara um sumarþing og guð má vita hvað. Hér er ein setning um þetta mikla stefnumál og hún er á bls. 2:

„Unnið er að breytingum á húsnæðisstefnu stjórnvalda með það að markmiði að styðja betur við tekjulágar fjölskyldur og styrkja stöðu fyrstu íbúðarkaupenda.“

Það er ekkert slegið á það hvað þetta muni kosta en samt er tekið fram á bls. 5 að kjarasamningar séu mikill óvissuþáttur og að ef þeir stuðli að óstöðugleika verði ekkert af húsnæðismálunum.

Ég bið hv. þingmann að velta upp með okkur hvort hún sé ekki sammála því að það vanti ákveðnari tón hvað varðar þetta stóra stefnumál.