144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

kjarasamningar og verkfallsréttur.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal hvenær sem er taka umræðu við hæstv. fjármálaráðherra um það með hvaða hætti við högum samskiptum á vinnumarkaði. Ég er sannfærður um að verkalýðshreyfingin er líka tilbúin að gera það, en með eðlilegum formerkjum, ekki í miðri kjaradeilu sem hæstv. ráðherra er aðili að og ýjar að því að verkfallsrétturinn, sem viðsemjandi hans fer með, sé misnotaður. Það er það alvarlega í málinu.

Staðreyndin sem við er að glíma núna og ríkisstjórnin getur ekki horft fram hjá er að ástandið á vinnumarkaði er afleiðing einhliða aðgerða ríkisstjórnarinnar þegar hún skerti kjarasamningsbundin kjör launafólks, þ.e. með lækkun veiðigjalda, hækkun matarskatts, aukinni kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Það eru tekjuskattsbreytingarnar sem nýttust best þeim sem voru með mestu tekjurnar og ekkert þeim sem voru með undir 250 þús. kr. á mánuði. Það er arfleifðin sem ríkisstjórnin hefur skilið eftir í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er það sem búið er að brjóta upp frið á vinnumarkaði. Það er alveg sama hvaða lagaumgjörð menn finna um verkfallsréttinn, ef ríkisstjórnin er staðráðin í að auka á (Forseti hringir.) misskiptingu, draga úr jöfnuði í samfélaginu og koma í bakið (Forseti hringir.) á verkalýðshreyfingunni og svipta hana umsömdum réttindum, þá verður aldrei friður á vinnumarkaði.