144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur ráðherra og túlkun þeirra.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður rakti ágætlega sögu þess máls er varðar siðareglur Stjórnarráðsins. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að siðareglur sem samþykktar voru 2011 og birtust í Stjórnartíðindum það ár hafa verið hafðar til viðmiðunar fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr. Þannig fengu ráðherrar kynningu á þeim siðareglum þegar ríkisstjórnin tók við og voru þær hluti af upplýsingamöppu ráðherra sem tíðkast að afhenda nýjum ráðherrum. Menn hafa því haft þær reglur til hliðsjónar áfram.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður nefndi að fyrir liggur nýtt frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands þar sem meðal annars er fjallað um siðareglur og hlutverk þeirra og mikilvægi þess að skerpa þar á. Fyrir liggur að vinna hefur átt sér stað í forsætisráðuneytinu við undirbúning nýrra siðareglna, það hefur raunar komið fram áður, en jafnframt fylgir sögunni að eðli málsins samkvæmt verði beðið með setningu nýrra siðareglna þar til frumvarpið um Stjórnarráð Íslands hefur verið samþykkt. Í millitíðinni hafa menn þessar siðareglur frá 2011 til viðmiðunar.