144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur ráðherra og túlkun þeirra.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og nærri má geta tek ég ekki undir síðustu fullyrðingu hv. þingmanns. Hvað varðar hins vegar spurninguna um hvaða hluta siðareglna hafi verið farið yfir var náttúrlega farið yfir reglurnar í heild, þær fylgdu sem heild og eru til hliðsjónar sem heild. En með því fellst ég alls ekki á fullyrðingu hv. þingmanns um að ekki hafi verið farið eftir þeim reglum, meðal annars hvað varðar hagsmunaskráningu ráðherra. Ég gef mér að hv. þingmaður sé þar að vísa til þess að ráðherrar eigi að segja frá hverjir eru leigusalar þeirra. Ekki er fjallað um það í þessum siðareglum og raunar ekki í neinum siðareglum sem ég þekki.

En þá að nefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni. Það virðist vera einhver misskilningur á ferð um hlutverk þeirrar nefndar. Eftir sem áður verður leitað til þeirra stofnana sem getið er um í núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands, umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, ef ég man rétt, og Háskóla Íslands um leiðbeiningar og aðstoð við setningu siðareglna, þannig að það breytist ekki (Forseti hringir.) þó að nefndin um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni starfi ekki áfram.