144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

úttekt á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins.

[15:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Nú er farið að glitta í niðurstöður rannsóknar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, á erlendum áhrifavöldum hrunsins, sem fram fer á vegum fjármálaráðuneytisins. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega niðurstöðuna hér í þingsal, en ég ætla að leyfa mér að segja að ég tek henni með ákveðnum fyrirvara, svo að ég orði það eins mildilega og mér er unnt, í ljósi þess að sá sem rannsakar er yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og einhver einlægasti aðdáandi fyrrverandi seðlabankastjóra, sem landið hefur alið.

Mig langar að varpa nokkrum spurningum fram til fjármálaráðherra þessu tengt.

Fyrir það fyrsta: Telur hæstv. fjármálaráðherra að viðkomandi fræðimaður sé fær um að gera hlutlausa úttekt á hruninu? Tekur hann sem sagt niðurstöðunum fyrirvaralaust?

Hvaða faglega ferli liggur að baki þeirri ákvörðun að láta viðkomandi prófessor framkvæma þessa rannsókn?

Stendur sams konar ferli öðrum fræðimönnum til boða? Þetta er mikilvægt vegna þess að við viljum hafa jöfn tækifæri í samfélagi okkar og jöfn tækifæri fyrir fræðimenn okkar til að stunda rannsóknir.

Það vekur athygli að sú fjárupphæð sem rannsóknin kostar er sambærileg þeirri rannsókn sem fram fór á vegum sama prófessors og fyrir sama ráðuneyti fyrir hrun. Hann skilaði niðurstöðum árið 2009 á áhrifum skattalækkunarstefnu Sjálfstæðisflokksins til ráðuneytisins. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvaða (Forseti hringir.) viðbrögð þessar spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra fá.