144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

úttekt á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið tímabært orðið að meta erlenda áhrifavalda hrunsins og þá ekki síst það gríðarlega fjárhagslega tjón sem innlendir aðilar urðu fyrir vegna ráðstafana sem teknar voru, m.a. af opinberum aðilum víða í nágrannaríkjunum þar sem íslensk fjármálafyrirtæki höfðu starfsemi.

Tökum sem dæmi þau umfangsmiklu viðskipti sem íslenskir aðilar voru í í Noregi; ég gæti nefnt önnur af Norðurlöndunum í þessu samhengi líka. Þar er ljóst að undan íslenskum fyrirtækjum fóru fyrst og fremst fyrir pressu frá innlendum eftirlitsaðilum stór fjármálafyrirtæki. Þeir sem við þeim tóku högnuðust um tugi milljarða á nokkrum mánuðum, sumir á nokkrum dögum, marga milljarða, þ.e. kaupendurnir. Við gætum líka rakið söguna yfir til Bretlands og velt því fyrir okkur hvort banki eins og Heritable bankinn í London hafi í raun og veru verið í þroti og hvort það hafi verið ástæða fyrir bresk stjórnvöld að þrýsta honum fram af bjargbrúninni þegar það eru 100% endurheimtur á kröfur á þann banka.

Þetta eru mál sem hljóta að vera hluti af því uppgjöri sem þarf að eiga sér stað. Af þeirri ástæðu gerði ég samning við Félagsmálastofnun Háskóla Íslands, sem tók að sér þetta verkefni. Því hefur verið stýrt af þremur aðilum og Hannes Hólmsteinn er meðal þeirra. Ég veit ekki nema það verk gangi ágætlega. Það er á mína ábyrgð að gera þennan samning. Ég ætla ekki að segja meira um þau orð sem hér féllu um þann prófessor, en mér finnst ræðustóll Alþingis ekki góður vettvangur til þess að vega að fræðimannsheiðri einstakra manna úti í bæ.