144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

úttekt á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins.

[15:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega átt við Félagsvísindastofnun. (Fjmrh.: Já.)

Það er mjög mikilvægt að fjármálaráðuneytið sé ekki félagsmálastofnun fyrir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna er spurt að því hvort faglegir ferlar séu þarna að baki og hvort umsóknarferlið hafi farið þannig fram að allir hafi getað sótt um og jafnt aðgengi sé fyrir fræðimenn. Þetta er stórt mál. Það er ekkert rosalega há upphæð fyrir ríkissjóð að setja 10 milljónir í þetta, en það er samt sem áður sambærileg upphæð og ríkisstjórnin er núna að styrkja hjálparstarf í Nepal fyrir. Auðvitað getur það skipt fræðimenn mjög miklu máli að fá viðlíka verkefni. Auðvitað skiptir máli hvernig til þess er tjaldað. Það var ekki verið að spyrja hvort þörf væri á þessari rannsókn, sem meginhluti svars hæstv. ráðherra fór í, heldur bara hvort allir hefðu jafnan aðgang að þessu. (Forseti hringir.) Auðvitað verða menn að fá að spyrja að því hvort þarna sé rétti maðurinn … (Forseti hringir.)