144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

afnám verðtryggingar.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ítrekað höfum við gefið hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að viðurkenna, sem er, að Framsóknarflokkurinn ætlar að svíkja kosningaloforð sitt um afnám verðtryggingar. Ítrekað höfum við gefið honum tækifæri til að segja einfaldlega að það hafi ekki verið gert að skilyrði af hálfu Framsóknarflokksins fyrir myndun ríkisstjórnarinnar að verðtryggingin yrði afnumin og það sé ekkert í stjórnarsáttmálanum um afnám verðtryggingar. En forsætisráðherra þverskallast við og eftir misvísandi yfirlýsingar hans og fjármálaráðherra í Fréttablaðinu í síðustu viku var þetta allt vondum fréttaflutningi og útúrsnúningum þingmanna að kenna.

Auðvitað vekur þetta spurningar úti í samfélaginu. Sigurjón M. Egilsson spurði hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson á Sprengisandi í gær hvernig þetta væri eiginlega með afnám verðtryggingar. Fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar sagði orðrétt: Þetta stjórnarsamstarf er ekki um það að útrýma verðtryggingunni.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er hægt að segja þetta miklu skýrara, bara í andlitið á formanni Framsóknarflokksins, þegar æðsti yfirmaður efnahagsmála í ríkisstjórninni, Bjarni Benediktsson, formaður samstarfsflokksins, segir það algerlega afdráttarlaust að þetta stjórnarsamstarf sé ekki um að útrýma verðtryggingunni? Liggur þá ekki fyrir að það verður ekki staðið við loforðið um afnám verðtryggingar, að það var bara skilið eftir, það var aldrei gert að neinu skilyrði? Er ekki kominn tími til þess, hæstv. forsætisráðherra, að viðurkenna að svo sé? Eða er það rétt sem haft er eftir hæstv. félagsmálaráðherra í Fréttablaðinu í dag, að hún telji að fjármálaráðherra ætli bara ekki að fara að samþykktum ríkisstjórnarinnar? (Félmrh.: Ég sagði það aldrei.) Þess vegna spyr ég: Er það rétt eftir haft? Það er þá gott ef það kemur fram, ef það er ekki rétt eftir haft. En er nema von að fólk og fjölmiðlar í landinu séu orðnir furðu lostnir yfir margvíslegum misvísandi yfirlýsingum (Forseti hringir.) ráðherra ríkisstjórnarinnar um þetta kjarnamál í efnahagsmálum landsins?