144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

afnám verðtryggingar.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Búa til ágreining sem enginn er! Ef hæstv. forsætisráðherra hefði hlustað á Bjarna Benediktsson á sunnudagsmorgni í gær hefði hann heyrt fjármálaráðherra segja að orkubitasendingar félagsmálaráðherrans í fjármálaráðuneytið væru bæði óskiljanlegar og óþolandi. Er ég að búa hér til einhvern ágreining? Ónei. Er ég að búa til einhvern misskilning um verðtrygginguna? Nei. Forsætisráðherra lofaði afnámi verðtryggingar og hann ætlar að svíkja það því að fjármála- og efnahagsráðherrann hefur lýst því yfir að það sé ekki á dagskrá. Félagsmálaráðherra segir að það eigi að banna verðtryggingu neytendalána. Fjármálaráðherra segir að það sé óraunhæft að banna verðtryggingu og það sé bara verið að skoða lán á einhverju tilteknu árabili í ráðuneytinu. Er nema von að menn klóri sér í höfðinu og velti fyrir sér hvað eiginlega sé ofan á í þessari ríkisstjórn, það sem ráðherrar Framsóknarflokksins segja eða það sem stendur í stjórnarsáttmálanum? Stendur eitthvað, hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) um afnám verðtryggingar í stjórnarsáttmálanum? Er þetta stjórnarsamstarf um það að útrýma verðtryggingunni eða á ekki að gera neitt í því máli eins og raunin er?